Leikurinn hafði litla þýðingu þar sem að Danir höfðu þegar tryggt sér efsta sæti I-riðils, og þar með sæti í lokakeppni EM, en Ísland átti ekki lengur möguleika á að ná fyrsta eða öðru sæti eftir 2-0 tapið gegn Litháen í síðustu viku.
Tapið í dag þýðir að Ísland endar með níu stig í riðlinum, úr átta leikjum, í næstneðsta sæti. Litháen endaði neðst með þrjú stig en Tékkland og Wales enduðu með fjórtán stig, þremur stigum á eftir Dönum. Tékkland tók þó næstefsta sætið og komst í umspil um sæti í lokakeppninni, vegna innbyrðis úrslita gegn Wales.
Danir voru einfaldlega sterkari aðilinn í leiknum við Ísland í dag og Tochi Chukwuani, fyrrverandi lærisveinn Freys Alexanderssonar hjá Lyngby, kom þeim yfir á 32. mínútu, þegar hann tók boltann niður með brjóstkassanum innan teigs og skaut í markið.
Mathias Kvistgaarden skoraði svo seinna mark Dana af stuttu færi, eftir að fyrirgjöf frá vinstri komst alla leið til hans á fjærstönginni.