Handbolti

Elvar og Arnar í topp­málum í riðli Vals

Sindri Sverrisson skrifar
Elvar Örn Jónsson lét til sín taka með Melsungen í dag.
Elvar Örn Jónsson lét til sín taka með Melsungen í dag. Getty/Swen Pförtner

Landsliðsmaðurinn Elvar Örn Jónsson var einn af markahæstu mönnum þýska liðsins Melsungen í dag þegar það gjörsigraði Vardar frá Norður-Makedóníu, 34-18, í Evrópudeildinni í handbolta.

Liðin eru í riðli með Val og Porto sem nú eigast við í Kaplakrika. 

Melsungen hefur unnið báða leiki sína til þessa, því liðið vann Porto í fyrsta leik, en Vardar er með tvö stig eftir 33-26 heimasigur gegn Val í fyrsta leik.

Elvar Örn skoraði fimm mörk gegn Vardar í dag, líkt og Adrian Sipos og Ian Barrufet Torrebejano, og var Melsungen sjö mörkum yfir í hálfleik, 17-10. Arnar Freyr Arnarsson, félagi Elvars úr íslenska landsliðinu, skoraði eitt marka Melsungen.

Óðinn fagnaði sigri í Slóvakíu

Þriðji landsliðsmaðurinn, Óðinn Þór Ríkharðsson, var svo á ferðinni með Kadetten Schaffhausen þegar svissneska liðið vann 39-30 útisigur gegn Tatran Presov í Slóvakíu. Óðinn skoraði þrjú mörk í leiknum.

Kadetten hafði tapað á heimavelli gegn Benfica, 26-25, í fyrsta leik en Slóvakarnir töpuðu gegn Limoges, 31-24.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×