Innlent

Guð­mundur Árni stefnir á oddvitasætið í Suðvesturkjördæmi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Guðmundur Árni stefnir á þing og er tilbúinn í slaginn.
Guðmundur Árni stefnir á þing og er tilbúinn í slaginn. Vísir/Vilhem

„Það er mikill hugur í mér,“ svarar Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar og bæjarstjórnarmaður í Hafnarfirði, spurður að því hvort hann verði á lista fyrir Samfylkinguna í komandi þingkosningum.

„Ég ætla að gefa kost á mér í oddvitasætið hér í Kraganum og er bjartsýnn,“ bætir hann við. „Við ætlum að sækja hér góðan sigur.“

Guðmundur Árni var áður þingmaður Reyknesinga fyrir Alþýðuflokkinn og Samfylkinguna árin 1993 til 2003, þingmaður Suðvesturkjördæmis fyrir Samfylkinguna 2003 til 2005 og ráðherra 1993 til 1994.

Eftir sextán ára hlé í pólitík snéri hann aftur fyrir tveimur og hálfu ári síðan og var kjörinn varaformaður Samfylkingarinnar í október 2022.

Guðmundur Árni segist þó ekki löngu hafa gert það upp við sig að freista þess að snúa aftur á þing.

„En síðan gerast hlutir og það bresta á kosningar. Og ég vil hjálpa mínu fólki eins og ég get,“ segir hann.

„Það er mikil og brýn þörf fyrir nýja ríkisstjórn og aðra að taka við og ég vil vera í því liði.“

Þess má geta að Þórunn Sveinbjarnardóttir var oddviti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi í síðustu kosningum og eini frambjóðandi flokksins í kjördæminu sem náði inn á þing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×