Í síðustu Alþingiskosningum leiddu Björn Leví Gunnarsson og Halldóra Mogensen í Reykjavíkurkjördæmunum. Bæði hafa þau gefið út að þau ætli að halda áfram og því ljóst að slagur verður um oddvitasætin í kjördæmunum. Píratar eru með sameiginlegt prófkjör í Reykjavík en raða svo á lista í báðum kjördæmunum miðað við niðurstöðu í kosningu. Skráning í prófkjörið opnaði 15. október og lýkur á sunnudag, 20. október. Kosning fer svo fram 20. til 22. október.
„Á síðustu dögum hefur staðan í stjórnmálum tekið ýmsum breytingum og ímynda ég mér að fólkið í landinu sé orðið spennt fyrir raunverulegum breytingum - breytingum á því hvernig stjórnmál eru stunduð og breytingum á stjórnmálamönnum sjálfum. Því sækist ég eftir því að leiða listann í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Það er kominn tími á að hleypa nýju fólki að borðinu, sem er eðlilegt og heilbrigt í öllum flokkum. Mikilvægt er að flokkur sem talar fyrir breytingum fagni breytingum innan flokksins,“ segir Lenya Rún í færslu sem hún birti á Facebook í gærkvöldi.
Ný forysta marki nýjan kafla
Þar segir hún einnig að ný forysta eigi að marka nýjan kafla í flokknum og að aldrei hafi verið jafn mikil þörf á því að hamra á upphaflegu gildum Pírata.
„Forysta og ábyrgð í stjórnmálaflokki krefst trausts, og er ég að biðja um það traust. Ég vil að þingmenn tali fyrir fólk en ekki yfir fólk. Ég vil færa valdið aftur í hendur fólksins, enda er beint lýðræði ein af grunnstoðum Pírata. Þingseta er ekki sjálfgefin og er hún einungis möguleg í krafti umboðs grasrótarinnar. Verði mér treyst fyrir því umboði, mun ég sjá til þess að áhersla grasrótar sé endurspegluð í komandi kosningabaráttu og á Alþingi,“ segir Lenya.