Teitur Erlendsson starfar núna sem aðstoðarmaður Ásmundar Einars Daðasonar ráðherra flokksins og oddvita í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu kosningum. Haukur Logi Karlsson er dósent við háskólann að Bifröst, Fanný Gunnarsdóttir sinnti varaþingmennsku fyrir flokkinn 2006 og 2015. Björn Ívar Björnsson er í nefndarmaður í Íbúaráði Vesturbæjar fyrir Framsóknarflokkinn og Unnur Þöll Benediktsdóttir er varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík.
Í pósti sem sendur var á félagsmenn í morgun kom fram að Framsókn í Reykjavík leiti að öflugu og áhugasömu fólki á framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður og Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir komandi Alþingiskosningar. Þar kemur einnig fram að framboðsfrestur er til klukkan 22:00 á sunnudag hinn 20. október 2024.
Mikill áhugi
„Það hefur ekki staðið á viðbrögðunum,“ segir Lárus Sigurður í samtali við fréttastofu um póstinn sem sendur var á félagsmenn.
Í síðustu kosningum leiddu Ásmundur Einar Daðason og Lilja Dögg Alfreðsdóttur ráðherrar flokksins lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum. Þau voru einu þingmenn kjördæmanna sem komust á þing.
„Það var kjördæmaþing hjá Reykjavíkurkjördæmunum í gærkvöldi. Það var tvöfalt kjördæmaþing þar sem endurnýjað var kjör kjörnefndarinnar sem ég leiði,“ segir Lárus Sigurður.
Kjörnefndin mun stilla upp á lista sem er svo sendur til stjórnar kjördæmasambandanna sem þarf svo að samþykkja listann á sérstöku auka kjördæmaþingi. Lárus gerir ráð fyrir að það verði haldið í kringum 26. eða 27. október. Svo að tími fáist til að klára málið áður en skila þarf framboðunum inn þann 31. október.