Þetta staðfestir Líneik Anna í samtali við Austurfrétt. Hún var fyrst kjörin á þing í kosningunum 2013. Hún náði ekki á þing í kosningunum 2016 þegar Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð mynduðu ríkisstjórn. Sú ríkisstjórn varð ekki langlíf, boða þurfti aftur til kosninga 2017 þar sem Líneik náði kjöri á ný. Hún hefur setið á þingi fyrir Framsókn síðan.
Líneik Anna segir í samtali við Austurfrétt að slit Bjarna Benediktssonar á ríkisstjórnarsamstarfinu á sunnudag hafi komið henni á óvart. Hún sé bjartsýn á möguleika Framsóknar í komandi kosningum.