Fótbolti

Börkur hló spurður um fram­boð: „Talandi um að fara úr öskunni í eldinn“

Sindri Sverrisson skrifar
Börkur Edvardsson er ekki á leiðinni á þing, eða að minnsta kosti ekki í bili.
Börkur Edvardsson er ekki á leiðinni á þing, eða að minnsta kosti ekki í bili. Vísir

Börkur Edvardsson, fráfarandi formaður knattspyrnudeildar Vals, útilokar ekki að snúa sér að stjórnmálum einhvern tímann í framtíðinni. Hann ætlar þó ekki í framboð fyrir komandi alþingiskosningar.

Börkur settist niður með Aroni Guðmundssyni íþróttafréttamanni í dag og afrakstur þess viðtals má sjá á Vísi næstu daga.

Börkur hefur starfað ötullega fyrir Val í yfir tvo áratugi en mun nú snúa sér að öðru, og ein hugmyndin er að snúa sér að skriftum til að gera upp þennan viðburðaríka tíma.

En kæmi til greina að snúa sér að stjórnmálum? „Talandi um að fara úr öskunni í eldinn…“ sagði Börkur hlæjandi en bætti svo við:

„Nei, ekki eins og staðan er núna, en enginn veit ævi sína fyrr en öll er. En ég reyni nú að forðast að ræða þess konar pólitík. Ég er með mínar skoðanir og fylgi mínum hugsjónum þar, en ég segi aldrei nei við neinu. En ég er ekki að fara að bjóða mig fram núna,“ sagði Börkur en brot úr viðtalinu má sjá hér að neðan.

Klippa: Börkur ekki á leið í framboð

Hvað svo sem Börkur tekur sér fyrir hendur þá er ljóst að hann mun heimsækja Hlíðarenda reglulega, og styðja lið félagsins sem öll leika í efstu deildum karla og kvenna, í fótbolta, handbolta og körfubolta. Hann ætlar þó ekki aftur í sjálfboðaliðastarfið sem var upphafið að stjórnunarstörfum hans hjá félaginu.

„Núna ætla ég ekki að gefa mig að neinu sjálfboðastarfi í kringum Val. Ég ætla að hvíla það. Ég ætla hins vegar að mæta á völlinn og styðja við mitt fólk, og mína stjórn og minn nýja formann. Hvetja þau áfram til góðra verka. 

En ég er ekki viss um að ég mæti á alla leiki. Ég hugsa að ég verði frelsinu feginn og velji mér leiki. Njóti núna þeirra forréttinda. En ég mun mæta áfram á handbolta, körfubolta og fótbolta, hjá stelpum og strákum, og öskra „áfram Valur!“ Það breytist ekki neitt hjá mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×