Handbolti

Fjölnir ná­lægt því sem Porto tókst ekki en Valskonur á siglingu

Sindri Sverrisson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson skoraði eitt af mörkum Vals í kvöld.
Björgvin Páll Gústavsson skoraði eitt af mörkum Vals í kvöld. vísir/Anton

Kvenna- og karlalið Vals voru bæði í eldlínunni í kvöld í Olís-deildunum í handbolta. Valskonur unnu Gróttu af öryggi, 38-30, og hafa unnið alla leiki sína til þessa, en karlalið Vals lenti í hremmingum gegn nýliðum Fjölnis í Grafarvogi.

Valsmenn náðu með ótrúlegri endurkomu að koma í veg fyrir sigur Porto í Kaplakrika á þriðjudagskvöld, þegar liðin gerðu jafntefli í Evrópudeildinni.

Leikur við nýliða Fjölnis hefði því kannski átt að vera auðvelt verkefni, í samanburði, en Fjölnismenn gáfu ekkert eftir og voru með frumkvæðið þegar skammt var eftir. Þeir komust til að mynda í 32-30 og voru 33-32 yfir þegar þrjár mínútur voru eftir.

Þá skoruðu Valsmenn hins vegar þrjú mörk í röð og náðu að lokum að landa eins marks sigri, 35-34.

Úlfar Páll Monsi Þórðarson var markahæstur hjá Val með átta mörk og Viktor Sigurðsson skoraði fimm. Hjá Fjölni var Óðinn Freyr Heiðmarsson markahæstur með átta mörk og þeir Björgvin Páll Rúnarsson og Alex Máni Oddnýjarson skoruðu sjö mörk hvor.

Valskonur eru á flugi í Olís-deildinni.vísir/Anton

Á Seltjarnarnesi voru Valskonur hins vegar ekki í neinum vandræðum og höfðu náð sex marka forskoti í hálfleik, 20-14.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst hjá Val með ellefu mörk og Sigríður Hauksdóttir skoraði sjö, og þær Elín Rósa Magnúsdóttir og Lovísa Thompson sex mörk hvor.

Hjá Gróttu var Ída Margrét Stefánsdóttir markahæst með sex mörk en þær Katrín Anna Ásmundsdóttir og Karlotta Kjerúlf Óskarsdóttir skoruðu fjögur mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×