Viðburðurinn heitir „Sláturgerð og samvera“ og er á vegum Húnabyggðar. Þetta er í fyrsta skipti sem sérstakur sláturgerðadagur er haldinn á Blönduósi í félagsheimilinu og því mikil tilhlökkun fyrir deginum.
Kristín Ingibjörg Lárusdóttir er menningar- og tómstundafulltrúi hjá Húnabyggð.
„Við fengum þessa hugmynd síðasta vor að nýta að við erum hér með flott landbúnaðarhérað og akkúrat þegar sláturtíðin er í gangi eða er að klárast að gera eitthvað í kringum það.Þetta verður þannig að við ætlum að vera með opið hús í félagsheimilinu á Blönduósi á milli klukkan 13:00 og 16:00 þar sem ég er búin að fá til liðs við mig vanar sláturgerðarkonur og þær ætla að taka á móti fólki, fólk getur komið og hrært í sína blöndu og tekið svo með sér heim í soðið,“ segir Kristín.

Kristín lofar góðri stemmingu og ekki síður góðri samverustund í sláturgerðinni. Allir eru velkomnir að taka þátt í deginum.
„Já allir velkomnir þannig að ég hvet fólk til að gera sér ferð hér í Húnabyggð um helgina,“ segir Kristín Ingibjörg, sem er allt í öllu varðandi sláturgerðadaginn á morgun og svo í næsta mánuði verður ekki síður spennandi viðburður í Húnabyggð, sem kallast „Hlátur í Húnabyggð“.
