Boniface skoraði sigurmark Leverkusen þegar liðið vann Frankfurt, 2-1, á laugardaginn. Hann hefur skorað fimm mörk í sjö leikjum í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Snemma morguninn eftir fór Boniface ásamt öðrum að sækja vini sína út á flugvöllinn í Frankfurt.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu missti ökumaðurinn stjórn á bílnum vegna þreytu og hann lenti framan á vörubíl. Bíllinn hringsnerist eftir áreksturinn.
Boniface var fluttur á spítala en virðist hafa sloppið með minniháttar meiðsli á hendi. Ekki er vitað um ástand hinna sem voru í bílnum.
Boniface birti myndir af sér á sjúkrahúsinu á samfélagsmiðlum og þakkaði almættinu fyrir að ekki fór verr.
Nígeríumaðurinn kom til Leverkusen frá Union SG í Belgíu í fyrra. Hann skoraði 21 mark fyrir Leverkusen sem varð tvöfaldur meistari á síðasta tímabili.