Fótbolti

Hrósaði Núnez fyrir að stela markinu af Salah

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Darwin Núnez skorar sigurmark Liverpool gegn RB Leipzig.
Darwin Núnez skorar sigurmark Liverpool gegn RB Leipzig. getty/Alexander Hassenstein

Rio Ferdinand hrósaði Darwin Núnez, framherja Liverpool, fyrir að „stela“ marki af Mohamed Salah í 0-1 sigrinum á RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu í gær.

Núnez skoraði eina mark leiksins á 27. mínútu. Salah skallaði þá boltann að marki, boltinn var á leiðinni í netið en Núnez tók af allan vafa og potaði honum inn.

Ferdinand, sem fjallaði um leikinn fyrir TNT Sports, segir að Núnez hafi verið í fullum rétti til að stela markinu af Salah.

„Sem hópur myndu þeir vilja að hann skoraði. Þeir þurfa á öllum að halda ef þeir ætla að berjast um titla. Það er ekkert betra fyrir sjálfstraust framherja en að komast á blað,“ sagði Ferdinand.

„Skallinn hjá Salah hefði getað farið í stöngina eða inn. Ef það er einhver vafi verðurðu að setja boltann inn og það er það sem framherjar gera.“

Ferdinand hrósaði Núnez fyrir frammistöðu sína gegn Leipzig og sagði að hann hefði verið viðriðinn flest það besta sem Liverpool gerði í leiknum.

Núnez hefur nú skorað tvö mörk á tímabilinu. Liverpool hefur byrjað það frábærlega og unnið ellefu af tólf leikjum sínum í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×