Moise Kean kom Fiorentina yfir strax á níundu mínútu áður en Lucas Beltran tvöfaldaði forystu liðsins átta mínútum síðar með marki af vítapunktinum.
Manu Kone minnkaði muninn fyrir Roma á 39. mínútu, en Moise Kean sá til þess að heimamenn fóru með tveggja marka forystu inn í hálfleikinn með öðru marki sínu tveimur mínútum síðar.
Edoardo Bove skoraði svo fjórða mark Fiorentina snemma í síðari hálfleik, en á 65. mínútu gerðu gestirnir sér enn erfiðara fyrir þegar Mario Hermoso nældi sér í sitt annað gula spjald á fimm mínútna kafla og þar með rautt.
Manni fleiri bættu heimamenn fimmta markinu við þegar Mats Hummels varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net á 71. mínútu og þar við sat. Niðurstaðan því 5-1 sigur Fiorentina sem nú situr í fjórða sæti deildarinnar með 16 stig eftir níu leiki, sex stigum á eftir toppliði Napoli. Roma situr hins vegar í ellefta sæti með tíu stig.