Um ár er síðan skotflaug var síðast skotið frá Norður-Kóreu
Yonhap hefur eftir herforingjaráði Suður-Kóreu og yfirvöldum í Japan að eldflaugin hafi flogið í um 86 mínútur og ferðast um þúsund kílómetra áður en hún féll í hafið. Eldflaugin er sögð hafa farið í sjö þúsund kílómetra hæð frá jörðu.
Sé eldflaugum sem þessum skotið með hefðbundnum hætti gætu þær hæglega náð til meginlands Bandaríkjanna.
Norður-Kóreumenn staðfestu tilraunaskotið seinna í morgun og sögðu það „mikilvæga tilraun“ í vopnaþróun ríkisins. Í yfirlýsingu frá Kim Jong Un, einræðisherra, hét hann því að byggja upp kjarnorkuvopn ríkisins og að með tilraunaskotinu væri verið að senda óvinum Norður-Kóreu skýr skilaboð.
AP fréttaveitan segir líklegt að tilraunaskotinu hafi verið ætlað að fanga athygli Bandaríkjamanna og hafi verið viðbragð við gagnrýni á flutning hermanna frá Norður-Kóreu til Rússlands.
Fréttaveitan hefur eftir eldflaugasérfræðingum að Norður-Kóreumönnum hafi áður tekist að sýna fram á að langdrægar skotflaugar þeirra geti náð til Bandaríkjanna. Þetta tilraunaskot hafi líklega verið liður í því að kanna hvort eldflaugarnar geti borið stærri kjarnaodda.
Einn sagði líklegt að þessi nýja eldflaug, ef hún reynist ný, gæti borið stærstu kjarnaodda Norður-Kóreu.
Norður-Kóreumenn hafa náð töluverðum árangri í þróun eldflauga á undanförnum árum en sérfræðingar telja margir að hæpið sé að þeir búi yfir langdrægum skotflaugum sem geta borið kjarnorkuvopn til Bandaríkjanna. Hins vegar gætu þeir gert kjarnorkuárásir um alla Suður-Kóreu og nærliggjandi svæði.
Þá eru uppi áhyggjur í Suður-Kóreu og víðar um að Kim muni fá aðstoð frá ríkisstjórn Vladimírs Pútín í Rússlandi við þróun eldflauga sinn, í skiptum fyrir aðstoð við innrás Rússa í Úkraínu. Rússar hafa fengið mikið magn skotfæra og annarskonar hergagna frá Norður-Kóreu og nú er einnig talið að norðurkóreskir hermenn muni taka þátt í átökunum við Úkraínumenn.
Einn sérfræðingur sagði í samtali við AP að tilraunaskotið í morgun gefi til kynna að Rússar hafi mögulega veitt Norður-Kóreumönnum aðstoð við framleiðslu eldflaugaeldsneytis í föstu formi.
Eldflaugar sem skotið er á loft með eldsneyti í föstu formi gera notendum þeirra kleift að fela þær auðveldar og skjóta þeim á loft með minni fyrirvara en eldflaugum með fljótandi eldsneyti, þar sem ekki þarf að dæla eldsneytinu á þær skömmu fyrir skot. Hægt er að geyma þær með eldsneytinu innanborðs.