Deiluaðilar funduðu í gær hjá Ríkissáttasemjara. Þrátt fyrir að enn sé langt á milli aðila lauk fundinum á ágætum nótum að sögn Magnúsar Þórs Jónssonar, formanns Kennarasambandsins. Verið sé að fikra sig áfram í málinu.
„Fundurinn í gær var bara áframhald frá því á föstudag. Við erum aðeins að líta á málin frá öðru sjónarhorni. Við sátum saman yfir ákveðnum þáttum við umgjörð kjarasamninganna,“ segir Magnús.
Hann gerir ekki ráð fyrir því að langt sé í næsta fund.
„Það er mikið sem ber á milli enn þá en við erum í þessari vegferð. Það þarf að skrifa undir kjarasamninga að lokum og það er bara verkefnið. Að reyna að þokast nær í því,“ segir Magnús.
Verkföll í níu skólum hófust fyrir helgi. Kennarar við Menntaskólann í Reykjavík bætast við hópinn eftir tvær vikur og kennarar Árbæjarskóla, Garðaskóla og Heiðarskóla eftir þrjár vikur. Engin önnur atkvæðagreiðsla um verkföll er í gangi sem stendur.
„Við tökum bara dag fyrir dag og viku fyrir viku og sjáum hvernig hlutirnir ganga. Við teljum okkur vera búin að ná ákveðnum fókus í þessa vinnu og vinum bara að hún skili sér. Það er ekki ákveðið hvort við gerum það eða gerum það ekki að bæta við skólum,“ segir Magnús.