Hinn 19 ára gamli Benóný Breki átti annað árið í röð mjög gott tímabil með KR. Bæði árin sprakk hann út undir lok sumars og nú stóð hann uppi sem markakóngur deildarinnar á nýju markameti. Ofan á það var hann valinn besti ungi leikmaður Bestu deildarinnar.
Benóný Breki var næstum genginn í raðir sænska liðsins Gautaborgar fyrir rúmu ári síðan og hafa nokkur félög þar í landi rennt hýru auga til framherjans.
Í dag greindi Kristján Óli Sigurðsson frá því í hlaðvarpsþættinum Þungavigtinni að nokkur lið frá Hollandi væru með Benóný Breka á óskalista sínum sem og topplið ensku B-deildarinnar.
„Benoný Breki er eðlilega eftirsóttasta varan frá Íslandi, níur eru ekkert á hverju strái. Sunderland er á eftir honum, Heerenveen, Utrecht og AZ Alkmaar eru það líka,“ sagði Kristján Óli.
Föstudagsfjör í Vigtinni í dag.https://t.co/TgFkwrkD1p
— Kristján Óli Sigurðsson (@kristjanoli) November 8, 2024
Eftir að hafa fallið niður í C-deild hefur Sunderland risið upp með nýjum eiganda og er nú á toppi ensku B-deildarinnar. Þetta fornfræga félag gæti því snúið aftur í ensku úrvalsdeildina áður en langt um líður.

Hvað hollensku liðin þrjú varðar þá gerði Alfreð Finnbogason það gott með Heerenveen á sínum tíma, Jóhann Berg Guðmundsson og Kolbeinn Sigþórsson hófu sinn feril hjá AZ og Kolbeinn Birgir Finnsson er í dag leikmaður Utrecht.
Benóný Breki hefur til þessa skorað 30 mörk í 51 leik í efstu deild á Íslandi. Einnig hefur hann skorað fimm mörk í jafn mörgum bikarleikjum. Þessi efnilegi leikmaður hefur spilað alls 18 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim fjögur mörk.