Á vef Veðurstofunnar segir að búast megi við sunnan 18 til 25 metrum á sekúndu á norðanverðu Snæfellsnesi með snörpum vindhviðum. Varasamt verði að aka um svæðið á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Annars staðar á Breiðafirði verði mun hægari vindur.
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að í nótt hafi lægð komið inn á Grænlandshaf og bætt hafi í vind Suðvestur- og Vesturlandi, allvíða hafi verið og verði suðaustan tíu til átján metrar á sekúndu þar og rigning eða súld með köflum, en hvassviðri eða stormur um tíma á norðanverðu Snæfellsnesi. Svo lægi á þessum slóðum þegar nær dregur hádegi.
Í öðrum landshlutum verði fremur rólegt veður í dag, rigning eða súld á Suðausturlandi og Austfjörðum, annars úrkomulítið. Hiti fimm til þrettán stig.
Í kringum hádegi á morgun gangi svo í vestan og síðar suðvestan tíu til átján metra með skúrum, en þá stytti smám saman upp á Austurlandi. Heldur fari kólnandi.