Fótbolti

Þjálfari Íslendingaliðs réðst á eigin leik­mann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Clotet, þjálfari Triestina, var mjög ósáttur þegar leikmaður hans var rekinn af velli snemma leiks.
Pep Clotet, þjálfari Triestina, var mjög ósáttur þegar leikmaður hans var rekinn af velli snemma leiks. X

Þjálfari ítalska fótboltafélagsins Triestina missti stjórn á skapi sínu þegar einn leikmanna hans lét reka sig út snemma leiks í gærkvöldi.

Triestina hefur byrjað tímabilið hræðilega og tapaði enn á ný þegar liðið mætti Giana Erminio í gær. Giana Erminio vann leikinn 1-0 en sigurmarkið kom þó ekki fyrr en þremur mínútum fyrir leikslok.

Þá voru leikmenn Triestina búnir að vera manni færri í 53 mínútur.

Pep Clotet, þjálfari Triestina, réðst á eigin leikmann þegar Raimonds Krollis fékk rauða spjaldið strax á 34. mínútu leiksins. Clotet er reynslumikill þjálfari sem stýrði á sínum tíma enska liðinu Birmingham og hefur þjálfað mörg félög á Ítalíu.

Clotet greip í treyju leikmannsins þegar hann labbaði fram hjá hinum á leið til búningsklefans. Þjálfarinn hristi leikmanninn sinn til og ýtti honum langt til baka áður en hann henti Krollis frá sér.

Með Triestina spilar íslenski knattspyrnumaðurinn Kristófer Jónsson en hann sat allan tímann á bekknum í gær. Kristófer er 21 árs gamall miðjumaður sem kom til Triestina frá Val árið 2023.  Hinn átján ára gamli Stígur Þórðarson er einnig í unglingaliði félagsins.

Eftir leikinn situr Triestina í botnsæti C-deildarinnar með sex stig úr fjórtán leikjum. Liðið hefur aðeins unnið einn leik en tapað níu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×