Guardiola ræddi valið á Jack Grealish í nýjasta enska landsliðshópinn en knattspyrnustjórinn var mjög hissa að sjá leikmanninn á leikmannalistanum fyrir leiki á móti Írlandi og Grikklandi í Þjóðadeildinni.
Grealish hefur ekki spilað með Manchester City síðan 20. október vegna meiðsla og hann er ekki kominn til baka. Grealish verður því ekki með City á móti Brighton í dag. ESPN segir frá.
Guardiola var spurður út í það hvort hann hafi rætt við Carsley. Svarið var stutt: „Nei,“ svaraði Guardiola.
„Ég er ekki rétti maðurinn til að dæma um það hvort þú getir spilað eða ekki. Mitt teymi segir mér að hann sé ekki leikfær á morgun [í dag] og getur því ekki spilað. Fólkið hjá enska landsliðinu telur aftur á móti að hann geti hjálpað þeim,“ sagði Guardiola.
Carsley talaði sjálfur um það að Grealish hafi verið að æfa með City síðustu daga. Pep gerði lítið úr því.
„Hann var í líkamsræktarsalnum í nokkrar mínútur síðustu tvo daga,“ sagði Guardiola.
Guardiola virkaði mjög pirraður yfir því að Grealish verði með enska landsliðinu í stað þess að ná sér að fullu og geta þá pottþétt hjálpa City eftir landsleikjahlé. City glímir við mikil meiðsli leikmanna þessar vikurnar.
„Þetta er spurning sem landsliðsþjálfarinn þarf að fá. Ég kem ekki nálægt þessu. Þeir geta valið þá sem þeir vilja. Það eina sem ég get sagt er að hann meiddist á móti Wolves. Síðan eru liðnir sautján dagar og í dag var hann að æfa í fyrsta sinn með liðinu,“ sagði Guardiola.
Guardiola sagði að Grealish vildi sjálfur vera með enska landsliðinu.