Sport

Gagn­rýnir blaða­mann sem gerði grín að út­liti hennar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Barbora Krejcikova hefur svarað fyrir sig eftir að blaðamaður hæddist að útliti hennar.
Barbora Krejcikova hefur svarað fyrir sig eftir að blaðamaður hæddist að útliti hennar. getty/Artur Widak

Barbora Krejcikova, sem vann Wimbledon-mótið í tennis í ár, hefur gagnrýnt blaðamann vegna ummæla hans um útlit hennar.

Í beinni útsendingu Tennis Channel frá WTA Finals í Sádi-Arabíu henti blaðamaðurinn Jon Wertheim gaman að enni Krejcikovu. Hún fékk veður af ummælunum og gerði þau að umtalsefni á X-inu.

„Þú gætir hafa heyrt um ummælin í lýsingu Tennis Channel frá WTA Finals þar sem einblínt var á útlit mitt en ekki frammistöðu,“ skrifaði Krejcikova á X.

„Sem íþróttakona sem hefur helgað sig þessari íþrótt varð ég fyrir vonbrigðum að sjá svona ófagleg ummæli. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem eitthvað svona gerist í íþróttaheiminum. Oft hef ég ekki kosið að láta í mér heyra en ég held að það sé kominn tími á að ítreka þörfina á virðingu og fagmennsku í íþróttafréttamennsku. Augnablik sem þessi draga athyglina frá hinu sanna eðli íþróttanna og alls þess sem íþróttafólk leggur í þær.“

Wertheim hefur beðist afsökunar á ummælum sínum. Hann gerði sér ekki grein fyrir að hann væri í loftinu þegar hann lét ummælin falla en segist samt ekki eiga sér neinar málsbætur.

Tennis Channel setti Wertheim til hliðar eftir að ummæli hans fóru á flug. Sjónvarpsstöðin hefur beðið Krejcikovu afsökunar á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×