Karelina er bæði rússneskur og bandarískur ríkisborgari og starfar sem ballerína. Skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 gaf hún um fimmtíu dali til góðgerðarsamtaka í New York sem stutt hafa Úkraínumenn. Það samsvarar um sjö þúsund krónum á gengi dagsins í dag.
Hún var svo handtekin þegar hún ferðaðist frá Bandaríkjunum til að heimsækja fjölskyldu sína í Rússlandi.
Í fyrstu var hún ákærð fyrir „smávægilegt skemmdarverk“, samkvæmt frétt Moscow Times. Hún var sökuð um að safna fjármunum sem notaðir voru til að kaupa hergögn fyrir úkraínska herinn og var ákærunni síðar breytt og hún ákærð fyrir landráð. Karelina var svo sakfelld í sumar og dæmd til tólf ára fangelsisvistar.
Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa lýst dóminum sem grimmdarlegri illsku.
Hér að neðan má sjá frétt úr Kvöldfréttum Stöðvar 2 frá því í sumar þegar Karelina var dæmd.
Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa lengi sakað Rússa um að handtaka bandaríska ríkisborgara fyrir litlar sem engar sakir, með því markmiði að dæma þá í fangelsi og nota seinna meir í fangaskiptum.