Vegna skriðunnar er hvorki fært til Hnífsdals né Bolungarvíkur frá Ísafirði.
Lögreglan varaði fyrr í dag við því að fólk væri ekki á gangi í fjallshlíðum á meðan lækir og árfarvegir væru að skila niður úrkomu. Þá hafði verði tilkynnt um nokkrar litlar aurskriður úr hlíðum Skutlusfjarðar. Ræsi og holræsakerfi væru ekki að anna vatnsmagninu.

„Vegagerð og starfsmenn sveitarfélaga eru í óðaönn að hreinsa aur og grjót sem hamlar rennslinu niðurföll og ræsi til að liðka til. Hvatt er til þess að vegfarendur sem leið eiga milli byggðakjarna á Vestfjörðum hafi varan á. En grjót og aur gætu runnið yfir veg í þessum aðstæðum,“ sagði í færslu lögreglunnar í hádeginu.

Lokað var fyrir vatnið á Flateyri í dag vegna hreinsunar á vatnsbóli eftir skriðuföll næturinnar. Tilkynnt var að drægist lokunin á langinn yrði tankbíll með neysluvatni sendur yfir á Flateyri frá Ísafirði.

Á vef Veðurstofunnar sagði í morgun að fjöldi skriða hefði fallið á Vestfjörðum í nótt, meðal annars á vegi í Dýrafirði við gangnamunna Dýrafjarðarganga, í Hestfirði, á Eyrarhlíð við Ísafjörð, á Dynjandisheiði og utan við Spilli við Súgandafjörð og vatnsból við Flateyri. Sömuleiðis flæddi vatn víða yfir vegi á Vestfjörðum.
Áttu myndir eða hefurðu sögu að segja frá aðstæðum á Vestfjörðum? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is.