Á mánudaginn var Koca dæmdur í þriggja ára og sjö mánaða fangelsi fyrir að kýla dómarann Halil Umut Meler eftir leik Ankaragücü og Rizespor í tyrknesku úrvalsdeildinni í desember í fyrra.
Árás Kocu á Meler vakti heimsathygli og í kjölfar hennar var leikjum í öllum deildum Tyrklands frestað.
Stjórnarformaður Ankaragücü, Ismail Mert Firat, kveðst ósáttur við fangelsisdóminn sem Kocu fékk. Í yfirlýsingu frá honum segir að ómögulegt sé að túlka dóminn með góðum ásetningi og enginn hneykslanlegur glæpur hafi verið framinn.
Firat sagði jafnframt að dómstólar hefðu látið stjórnast af hlutdrægu áliti almennings og að Kocu væri goðsögn sem hefði gert margt gott fyrir tyrkneskan fótbolta. Þá sagði Firat að ekki hefði verið tekið tillit til þess að Kocu hefði sjálfur sagt af sér sem forseti Ankaragücü og beðist afsökunar á að hafa ráðist á Meler.
Ankaragücü fékk rúmlega átta milljóna króna sekt fyrir árásina á Meler og þurfti að spila fimm heimaleiki án áhorfenda.
Búist er við því að Kocu áfrýji dómnum. Hann byrjar ekki að afplána refsingu sína fyrr en hæstiréttur hefur tekið áfrýjunina fyrir.