Á dögunum kynnti Vegagerðin nýja umhverfismatsskýrslu vegna framkvæmda við fyrstu lotu borgarlínunnar á milli Ártúnshöfða í Reykjavík og Hamraborgar í Kópavogi.
„Nú eru Kópavogur og Reykjavík að kynna sínar tillögur að breytingum á rammahluta aðalskipulags. Það er í kynningarferli nú til 25. janúar og verða haldnir kynningarfundir fyrir almenning í byrjun janúar bæði í Kópavogi og Reykjavík,“ segir Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna.
Þessi fyrsta lota er fimmtán kílómetra löng og gert er ráð fyrir 26 stoppistöðvum. Leiðin liggur frá Árstúnshöfða, yfir Elliðaárnar við Geirsnef, eftir Suðurlandsbraut, Laugavegi og Hverfisgötu niður í miðborgina, þaðan í gegnum háskólasvæðið, fram hjá Landspítalanum og Háskólanum í Reykjavík, yfir nýja Fossvogsbrú yfir í Kársnes í Kópavogi og á endanum upp í Hamraborg.
Mest áberandi framkvæmdin er Fossvogsbrú og undirbúningur fyrir landfyllingu hafin á Kársnesi, sem búið er að bjóða út.
„Við erum búin að bjóða út fyllingna, tilboð opna núna í byrjun desember þannig að vonandi geta menn hafið framkvæmdir hér snemma á næsta ári. Þá um það leyti getum við líka farið að bjóða út brúarsmíðina sjálfa,“ segir Davíð.
Gert er ráð fyrir að brúarsmíðinni ljúki um mitt ár 2028. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar, til að mynda er hætt vð að borgarlínan aki í blandaðri umferð hringinn í kring um Tjörnina og nú gert ráð fyrir að borgarlínan fari ein um Skothús- og Fríkirkjuvegi.
„Þegar kemur að bílaumferð í Reykjavík er það ekki fyrr en seinna, 2026 eða 2027 jafnvel 2028, sem menn fara fyrst að sjá truflanir. Við auðvitað reynum að tryggja vel allar hjáleiðir og skipta þessu niður. Þetta eru margir leggir sem þetta skiptist í þannig að það verður tekinn einn bútur í einu þannig að það verði sem minnst röskun af þessu.“