Sædís og stöllur hennar í Vålerenga lönduðu bikarmeistaratitlinum í dag með 1-0 sigri gegn Rosenborg sem liðsfélagi hennar úr landsliðinu, Selma Sól Magnúsdóttir, leikur með.
Sædís og Selma voru báðar í byrjunarliðunum í dag en eina mark leiksins kom á 62. mínútu þegar Sara Hörte skoraði með skalla af afar stuttu færi. Markið var skoðað á myndbandi og fékk að standa.
Selmu var skömmu síðar skipt af velli en Sædís lék allan leikinn og tók svo þátt í miklum fagnaðarlátum, sem sjálfsagt munu standa yfir fram á nótt.
Leiktíðinni er þó ekki lokið hjá Sædísi en Vålerenga mætir næst Arsenal í Meistaradeildinni 12. desember, og svo Juventus sex dögum síðar.
Vålerenga varð á fimmtudaginn fyrsta liðið til að taka stig gegn Bayern í riðlakeppninni, með 1-1 jafntefli í Noregi, og náði þar með í sitt fyrsta stig í keppninni.
Dagný lagði upp í sigri Hamranna
Á Englandi fagnaði Dagný Brynjarsdóttir 4-1 sigri með West Ham gegn B-deildarliði London City Lionesses, í enska deildabikarnum. Dagný lagði upp annað mark West Ham sem komst þá í 2-1 eftir sjötíu mínútna leik. Þetta var annar sigur West Ham í deildabikarnum, þar sem leikið er í fjögurra liða riðlum, og er liðið í góðri stöðu upp á að komast í 8-liða úrslitin.