Salah hefur alls komið með beinum hætti að sextán mörkum Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni, skorað tíu sjálfur og gefið sex stoðsendingar að auki.
Liverpool hefur unnið tíu af tólf leikjum sínum og er með 31 stig af 36 mögulegum. Það skilar liðinu átta stiga forystu og +16 í markatölu.
Salah hefur átt þátt í 16 af 24 mörkum liðsins eða 67 prósent markanna.
Án þessara marka hans væri Liverpool aðeins í þrettánda sæti deildarinnar með átta mörk skoruð í tólf leikjum. Það kemur náttúrulega maður í manns stað og því ekki hægt að taka þetta bókstaflega en það breytir ekki hvaða sögu tölfræðin segir.
Það vekur líka athygli að Chelsea væri þá á toppnum með einu stigi meira en Arsenal og tveimur stigum meira en Brighton og Manchester City.
Salah var með mark og stoðsendingu í 2-1 sigrinum á Chelsea, skoraði mark í 2-2 jafntefli á móti Arsemal og mark í 2-1 sigri á Brighton. Liverpool fékk sjö stig út úr þessum leikjum en hefði aðeins fengið eitt stig út úr þeim án marka Salah.
Liverpool hefði einnig misst af stigum á móti Manchester United, Aston Villa, Wolves, Ipswich og Southampton án hans því Egyptinn var með mikilvæg mörk eða stoðsendingar í þeim leikjum.