Argentínumaðurinn Icardi spilar í dag með Galatasaray í Tyrklandi en hann gerði garðinn frægan hjá Inter á Ítalíu áður en hann færði sig yfir til Parísar þar sem hann lék með PSG frá 2019 til 2023. Jafnframt spilaði hann átta A-landsleiki frá 2013-18.
Það eru nokkur ár síðan Icardi og eiginkona hans Wanda Nara, sem var áður gift Maxi Lopez – góðvini Icardi, komust í fréttirnar þar sem hjónaband þeirra var á barmi skilnaðar.
Á endanum gáfust hjónakornin upp og ákváðu að þetta væri komið gott enda átti Icardi að hafa haldið við aðrar konur þó þau væru enn gift.
Skilnaðurinn gekk vissulega ekki snurðulaust fyrir sig en í sitthvora áttina þau fóru. Nú hefur ítalski miðillinn Corriere della Sera greint frá því að Icardi hafi fundið ástina á ný. Það þykir þó heldur kómískt að ástina fann hann í örmum skilnaðarlögfræðings síns, Angela Burgos.
Icardi, il nuovo amore è Angela Burgos, l'avvocato che lo segue nel divorzio da Wanda https://t.co/OmVG5fpnT7
— Corriere della Sera (@Corriere) November 26, 2024
Burgos er sannkallaður stjörnulögfræðingur og rekur eigin stofu samkvæmt Corriere della Sera. Þá heldur hún úti sjónvarpsþætti um lögfræðitengd málefni.
Icardi ætti að hafa nægan tíma til að stela hjarta Burgos þar sem hann meiddist illa á hné gegn Tottenham Hotspur á dögunum og verður mögulega frá út leiktíðina. Hann hafði byrjað tímabilið af krafti og komið að átta mörkum (sex mörk, tvær stoðsendingar) í 14 leikjum í öllum keppnum.
Lið hans, Galatasaray, hefur byrjað tímabilið af krafti heima fyrir og á enn eftir að tapa leik. Trónir liðið á toppi deildarinnar með 34 stig, fimm meira en Fenerbahçe í sem situr í 2. sætinu.