Nemendur klöppuðu í sal skólans í morgun þegar skólameistari hafði tekið á móti þeim og farið yfir næstu daga í skólanum og næstu önn. Vel yfir þúsund nemendur eru í skólanum af öllu Suðurlandi. Nú verður kennt á fullum krafti til 20. desember og brautskráningin, sem átti að vera rétt fyrir jól verður laugardaginn 11. janúar á nýju ári og vorönnin hefst miðvikudaginn 15. janúar.
„Það var dásamlegt að sjá alla þessa krakka koma í skólann, það gladdi mitt litla hjarta. Ég vona svo sannarlega að nemendur skili sér í skólann eftir verkfallið en við vitum það ekki enn þá en ég vona svo sannarlega að, sem flestir skili sér, ég hef trú á því,“ segir Soffía Sveinsdóttir, skólameistari.
Og vorönnin, hvernig leggst hún í þig?
„Hún leggst mjög vel í mig. Við náðum að halda henni þannig að hún er óskert með tilliti til fjölda kennsludaga, þannig að ég held að það sé til mikils unnið með því.“

En nú hefur verkfallinu bara verið aflýst. Á Soffía von á því að það verði aftur verkfall?
„Ég vona svo sannarlega að samningar náist á þessum tíma, ég bara trúi ekki öðru,“ segir Soffía.

En hvað skyldu nemendur segja, hvernig fannst þeim að mæta aftur í skólann?
„Bara mjög vel, það er bara fínt. Við vorum bara að vinna, þetta var bara mjög fínt,“ segja vinirnir Benjamín Ágústsson og Arnar Bjarki Ásgeirsson.

„Það er svolítið erfitt að fara í rútínuna aftur, það var ekki erfitt að vakna í morgun. Við vorum bara að vinna og æfa og eitthvað þannig,“ segja vinkonurnar Amelía Ósk Atladóttir og Þóranna Eir Júlíusdóttir.
