Í morgun var greint frá því að Ashworth væri hættur hjá United eftir aðeins fimm mánuði í starfi íþróttastjóra félagsins.
United lagði mikið á sig til að fá Ashworth en félagið borgaði Newcastle United væna summu til að tryggja sér starfskrafta hans.
Ashworth átti að gegna stóru hlutverki í endurreisn United en miklar breytingar hafa verið gerðar bak við tjöldin síðan Ratcliffe og félagar eignuðust hlut í félaginu og tóku við stjórn fótboltamála hjá því.
Ashworth hvatti til þess að United myndi halda Erik ten Hag í starfi knattspyrnustjóra í sumar. Hollendingurinn var rekinn í lok október eftir verstu byrjun United á tímabili í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Ruben Amorim var ráðinn í hans stað.
Ratcliffe ku hafa verið æfur út í Ashworth vegna stuðningsins við Ten Hag og samband þeirra versnaði stöðugt samkvæmt enskum fjölmiðlum. Og eftir tapið fyrir Nottingham Forest í gær, 2-3, var komið að leiðarlokum.
Ashworth sá meðal annars um leikmannakaup og -sölur hjá United. Í sumar keypti félagið fimm leikmenn fyrir um tvö hundruð milljónir punda: Matthijs de Ligt, Joshua Zirkzee, Manuel Ugarte, Noussair Mazraoui og Leny Yoro.
United er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með nítján stig eftir þrettán leiki. Liðið hefur tapað tveimur síðustu deildarleikjum sínum.