Læknar sendu Lula í segulómskoðun eftir að hann kveinkaði sér undan höfuðverk í gær. Þá kom í ljós innvortis blæðing í höfðinu á forsetanum sem var fluttur um þúsund kílómetra leið frá höfuðborginni Brasilíu á skurðstofu á Sirio Libanes-sjúkrahúsinu í São Paulo, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Þar gekkst Lula undir hnífinn til þess að veita burt blóði úr heila hans.
Lula, sem er 79 ára gamall, hlaut höfuðáverka og litla blæðingu á heila þegar hann féll heima hjá sér undir lok október. Hann hefur þurft að aflýsa ferðalögum vegna þess, meðal annars á ráðstefnu svonefndra BRICS-ríkja í Kazan í Rússlandi.
Forsetaembættið hefur ekki tjáð sig um veikindi Lula en forsvarsmenn Sirio Libanes-sjúkrahússins hafa boðað fréttamannafund síðar í dag.
Lula sór embættiseið sem forseti Brasilíu í þriðja sinn í janúar í fyrra eftir að hann bar sigurorð af Jair Bolsonaro, þáverandi forseta. Hann var áður forseti frá 2003 til 2011.