Liverpool er eina liðið sem hefur unnið alla sex leiki sína til þessa og hefur í raun tryggt sér sæti í 8-liða úrslitum, eftir 1-0 sigur gegn Girona á Spáni. Arne Slot var ekki ánægður með spilamennsku Liverpool en vítaspyrna Mohamed Salah dugði til sigurs, eftir að Donny van de Beek, fyrrverandi leikmaður Manchester United, braut á Luis Diaz.
Í Þýskalandi vann Aston Villa frábæran 3-2 sigur gegn RB Leipzig í bráðfjörugum leik. Markverðir beggja liða gerðu sig seka um slæm mistök en það var Ross Barkley sem skoraði sigurmarkið á 85. mínútu, með skoti sem fór af varnarmanni í netið.
Kylian Mbappé, Vinícius Júnior og Jude Bellingham skoruðu allir í 3-2 útisigri meistara Real Madrid gegn Atalanta, toppliði Ítalíu. Charles de Ketelaere skoraði úr víti fyrir Atalanta og Ademola Lookman minnkaði muninn í 3-2 á 65. mínútu en Real landaði mikilvægum sigri og er í 18. sæti deildarinnar með níu stig.
Annar toppslagur var í Þýskalandi þar sem Leverkusen vann dramatískan 1-0 sigur gegn Inter, með marki frá franska varnarmanninum Nordi Mukiele á 90. mínútu.
PSG vann lífsnauðsynlegan sigur gegn Salzburg, 3-0, og rétt lafir því í umspilssæti fyrir leiki kvöldsins, í 24. sæti. Goncalo Ramos, Nuno Mendes og Désiré Doué skoruðu mörkin.
Flest mörk voru skoruð í Gelsenkirchen, þar sem Shaktar Donetsk varð að sætta sig við 5-1 skell gegn Bayern München. Michael Olise skoraði tvö mörk og þeir Konrad Laimer, Thomas Müller og Jamal Musiala skoruðu einnig, eftir að Kevin hafði komið Shaktar yfir á fimmtu mínútu.
Brest vann svo góðan 1-0 sigur gegn PSV með marki Julien Le Cardinal eftir aukaspyrnu. PSV fékk reyndar dæmda vítaspyrnu á 67. mínútu en eftir skoðun á myndbandi hætti dómari við þá ákvörðun.
Dinamo Zagreb og Celtic gerðu svo markalaust jafntefli, en mörkin úr 2-1 sigri Club Brugge gegn Sporting Lissabon vantar hér og er beðist velvirðingar á því.
Níu leikir eru svo á dagskrá í kvöld, þar á meðal leikir Arsenal og Monaco, Juventus og Manchester City, og Dortmund og Barcelona. Að vanda verður fylgst með öllum leikjum í Meistaradeildarmessunni á Stöð 2 Sport 2.