„Ég held þetta sé 39. árið sem ég stend við pottana og mér er ekki farið að leiðast,“ segir Jóhannes Stefánsson, eigandi Múlakaffis.
Þetta er stærsti dagur ársins. Hvað seljið þið marga diska? „Ég held við seljum á annað þúsund!“
Ungir sem aldnir gæddu sér á skötu í troðfullum borðsalnum, þó að sumir af yngri kynslóðinni hafi reyndar skipt skötunni út fyrir saltfisk. Þá áttu Vestfirðingar að venju marga fulltrúa, lögreglumenn sóttu sér „Takeaway“-skötu á vaktina og fulltrúi Slökkviliðsins lét sig heldur ekki vanta.
Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá viðtöl við góða gesti í skötuveislu Múlakaffis í dag. Þá smakkar undirritaður fréttamaður skötu í fyrsta sinn, undir eftirliti sérfræðinga.