Erlent

Barn meðal látinna í rútuslysi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Viðbragðsaðilar á vettvangi rútuslyssins.
Viðbragðsaðilar á vettvangi rútuslyssins. AP/Marius Birkeland

Þrír létust í rútuslysi í Noregi, þar á meðal eitt barn en ekki hefur verið borið kennsl á þá látnu. Ellefu manns voru fluttir á sjúkrahús.

Sextíu manns voru í rútu þegar hún rann af veginum í Hadsel í norðurhluta Noregs í gær. Þrír einstaklingar hafa verið úrskurðaðir látnir, barn og tvær konur. Önnur konan var á þrítugsaldri en hin á fimmtugsaldri. Barnið var á milli tíu og tólf ára.

Lögregla hefur enn ekki borið kennsl á þá látnu.

Í frétt NRK kemur fram að ellefu manns voru fluttir á sjúkrahús en voru þeir allir með minniháttar meiðsli. Einn þeirra hefur núþegar verið útskrifaður.

Rútan var á ferð frá Narvik til Svolvær þegar hún rann af veginum og hafnaði utan vegar nálægt vatni.

Rútan var á leið frá Narvik til Svolvær þegar slysið átti sér stað.Vísir/Hjalti

Þónokkrir einstaklingar sem voru í rútunni eru ferðamenn, meðal annars frá Kína, Singapore, Indlandi, Malasíu og Hollandi.

Leita í vatninu

Unnið var í alla nótt til að ná rútunni aftur upp á veginn. Það hafðist að ganga fjögur í nótt á norskum tíma. Rannsóknarnefnd slysa í Noregi mun síðan rannsaka slysið og aðdraganda þess.

Lögreglan og aðrir viðbragðsaðilar leita við vatnið þar sem slysið átti sér stað. 

Engar vísbendingar gefa til kynna að einhver farþegi hafi lent í vatninu. Leitað sé til að vera alveg viss um að engan vanti en einnig til að finna farangur farþeganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×