TMZ greinir frá andláti Maco, sem hét réttu nafni Chiajulam Ihesiba yngri og var frá bænum College Park í Georgíu-ríki.
Maco var fluttur á sjúkrahús í Los Angeles 12. desember eftir að lögreglu hafði borist tilkynning frá nágrönnum hans um skothvell snemma morguns. Hann lést síðan fimmtudaginn 27. desember síðastliðinn, tæpum tveimur vikum síðar, umkringdur fjölskyldu sinni.
Samkvæmt heimildamönnum TMZ hafði ástand Maco versnað til muna á undanförnum dögum og reyndist læknum ógerlegt að bjarga honum. Fjölskylda rapparans birti yfirlýsingu um andlátið á Instagram síðu hans á föstudag.
„Meðan við syrgjum þennan mikla missi, fögnum við líka hans makalausa lífi sem mun halda áfram að verða fólki innblástur og upplyfting,“ skrifaði fjölskyldan í færslunni. „Áhrif Maco, sem listamanns og manneskju, verða að eilífu grafin í hjörtu okkar.“
Sótti Hlíðarenda og Gullinbrú heim
Maco varð frægur árið 2014 fyrir smell sinn „U Guessed It“ sem gat af sér hið enn vinsælla „U Guessed it (Remix)“ með rapparanum 2 Chainz. Vinsældir laganna fleyttu honum á nýliðalista tímaritsins XXL árið 2015 en þangað rata ungir og upprennandi rapparar sem talið er að muni slái í gegn.
The Wait Is Over: Here Is the 2015 XXL Freshman Class #xxlfreshmen http://t.co/rlPtlFii0a pic.twitter.com/2JRQHHJFcf
— XXL Magazine (@XXL) June 3, 2015
Maco gaf í kjölfarið út þó nokkrar stuttskífur en náði ekki að fylgja vinsældum „U Guessed It“ eftir. Plöturnar The God of Rage og OG MACO komu út 2021 og 2023 en lítið fór fyrir þeim.
Á meðan frægðarsól Maco skein skært kom hann til Íslands og spilaði á tvennum tónleikum. Annars vegar hélt hann tónleika á Hendrix á Gullinbrú 15. desember 2016 og hins vegar tróð hann upp með Schoolboy Q á tónleikum þess síðarnefnda í Valshöllinni fjórum dögum síðar, 19. desember.
Hér fyrir neðan má heyra helsta slagara OG Maco: