Mikil uppbygging hefur átt sér á Árborgarsvæðinu á árinu 2024, sem er nú senn að ljúka en þá er átt við Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Ölfus og Hveragerðisbæ. Öll sveitarfélögin hafa samþykkt fjárhagsáætlun fyrir nýtt ár og gefa þær allar fyrirheit um áframhaldandi uppbyggingu og vöxt í sveitarfélögunum.
Pétur G. Markan, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar segir að nýtt ár líti mjög vel út hjá Hveragerðisbæ.
„Það er náttúrulega mikið af verkefnum, mikið af fjárfestingum hérna. Við erum í heilmikilli uppbyggingu íþróttamannvirkja, íþróttahús og gervigrasvöllur og svo erum við að brjóta land og götur. Þannig að það er mikið um að vera og þetta svæði í heildinni verður örugglega það svæði á sveitarstjórnarstiginu, sem er mest spenna fyrir næstu 10 til 20 árin og jafnvel lengur. Það er bara ofboðsleg gæði hérna og Hveragerðisbær hefur alveg ótrúlegan reit, ótrúlegt hreiður, sem að skapar okkur sérstöðu og hér mun fólk vilja búa í meira mæli,” segir Pétur.

Pétur hrósar bæjarfulltrúum í Hveragerði, þar sé góð eining og allir vinni saman, sem sé mjög mikilvægt eins og í kringum fjárhagsáætlunargerð og fleiri stór verkefni.
Og íbúum í Hveragerði fjölgar og fjölgar enda byggt og byggt.
„Já og maður finnur að ungt fólk er að horfa frá höfuðborgarsvæðinu yfir heiðina austur yfir og koma fyrir sér fótunum og byggja”, segir bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.