Fótbolti

Fyrr­verandi mark­vörður West Ham hættur í krabba­meins­með­ferð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ludek Miklosko var heiðraður fyrir leik West Ham og Liverpool í dag.
Ludek Miklosko var heiðraður fyrir leik West Ham og Liverpool í dag. Bradley Collyer/PA Images via Getty Images

Ludek Miklosko, fyrrverandi markvörður West Ham, hefur tekið ákvörðun um að afþakka frekari krabbameinsmeðferð, þremur árum eftir að hann greindist með meinið.

Tékkinn Miklosko, sem er orðinn 63 ára gamall, lék á sínum tíma 318 deildarleiki fyrir West Ham. Hann lék með liðinu frá 1990-1998, ýmist í efstu eða næstefstu deild Englands. Hann snéri síðan aftur til félagsins eftir ferilinn sem markmannsþjálfari.

Miklosko greindist með krabbamein fyrir um þremur árum þegar æxli fannst á mjöðm hans. Æxlið var fjarlægt, en þá hafði annað æxli komið sér fyrir í maganum á honum.

Miklosko var sérstakur gestur West Ham fyrir leik liðsins gegn Liverpool sem fram fór í dag og var hann heiðraður fyrir leik.

Miklosko hjálpaði West Ham að vinna sér inn sæti í efstu deild Englands árin 1991 og 1993, ásamt því að spila fyrir liðið í undanúrslitum enska deildarbikarsins, sem og FA-bikarsins.

Hann er í dag íþróttastjóri hjá Banik Ostrava í heimalandi sínu þar sem hann lék yfir 200 leiki áður en hann gekk í raðir West Ham árið 1990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×