„Það er snjókomubakki sem er yfir núna ætti með morgninum að fara austur fyrir og meira yfir á suðurlandið,“ segir Birgir Örn Höskuldsson veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands. Þegar líða tekur á morguninn ætti að hætta að snjóa á höfuðborgarsvæðinu en færist þá austur á bogin og tekur að snjóa á Suður- og Suðausturlandi.
„Síðan snýr hann eiginlega við þannig að í fyrramálið gæti snjóað eitthvað aftur hérna en síðan þegar líður á morgundaginn þá ætti nú að stytta upp og á áramótunum ætti að vera bjart og kalt veður,” segir Birgir um útlitið framundan á höfuðborgarsvæðinu.
Austlæg eða breytileg átt, fimm til þrettán metrar á sekúndu, verður um landið, stöku él fyrir norðan og allvíða snjókoma með köflum, einkum sunnanlands. Birgir á hvergi von á neitt sérstaklega vondu veðri á landinu um áramótin en þó gæti verið nokkur strekkingur austast til á landinu en yfirleitt kalt en nokkuð meinlaust veður.
Víða hálka og snjóþekja á vegum
Þótt ekki séu veðurviðvaranir í gildi sem stendur gæti veður haft einhver áhrif á færð um landið.
„Það er að koma greinilega úr þessu í dag einhver snjóhret á suðurhluta landsins. En í kvöld fer aðeins að blása þannig það er spurning á fjallvegum hvort að skafrenningur valdi einhverjum vandræðum. En á morgun dregur úr vindi þannig ef að það verða einhver vandræði þá væri það helst í kvöld og í fyrramálið,“ segir Birgir.
„Það verður ekkert slæmt svo sem en það er kominn léttur snjór og það þarf ekkert endilega mikinn vind til þess að hann fari af stað.”
Samkvæmt Vegagerðinni er sem stendur víða hálka á vegum, og sums staðar þæfingur eða þungfært. Snjóþekja er einnig á vegum hér og þar, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu. Óþekkt ástand er jafnframt víða á vegum, einkum norðvestan til á landinu og á Vestfjörðum.
Uppfært kl. 09:05:
Vegagerðin vekur athygli á ábendingu frá veðurfræðingi um að talsverður lausasnjór er nú á Vesturlandi. „Með deginum tekur að blása af norðaustri og þá skafrenningur og blinda. Hætt er við að vegir teppist. Einkum á það við um leiðir vestur á Snæfellsnes og í Dali. En einnig í Borgarfirði, s.s. í Melasveit og undir Hafnarfjalli í eftirmiðdaginn, þar sem vindur nær sér upp við þessar aðstæður,“ segir í tilkynningunni frá umferðarþjónustu Vegagerðarinnar.
