Sport

Há­spenna þegar Dobey og MVG fóru í undanúr­slit

Smári Jökull Jónsson skrifar
Michael van Gerwen og Chris Dobey eru komnir í undanúrslit.
Michael van Gerwen og Chris Dobey eru komnir í undanúrslit. Vísir/Getty

Chris Dobey og Michael van Gerwen tryggðu sér í dag sæti í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í pílukasti eftir sigra í æsispennandi viðureignum í Alexandra Palace.

Í fyrstu viðureign dagsins mættust „Ísmaðurinn“ Gerwyn Price og Englendingurinn Chris Dobey. Price varð heimsmeistari árið 2021 en Dobey var að freista þess að komast í undanúrslit heimsmeistaramótsins í fyrsta sinn á sínum ferli.

Í upphafi leiks leit út fyrir að Dobey þyrfti að bíða lengur eftir tækifærinu til að komast í undanúrslit. Price vann fyrstu tvo settin nokkuð örugglega en fimm sett þarf til að fara með sigur af hólmi í leiknum.

Chris Dobey fagnaði innilega þegar sigurinn var í höfn enda kominn í undanúrslit heimsmeistaramótsins í fyrsta sinn.Vísir/Getty

Dobey sneri hins vegar leiknum sér í vil á augabragði. Price gekk hörmulega að hitta í tvöföldu reitina til að klára leggina og Dobey gekk á lagið. Hann vann fjögur sett í röð og komst í 4-2.

Hann fékk gott tækifæri til að tryggja sér sigur í sjöunda settinu en klikkaði á fimm pílum í röð sem hefðu tryggt sigurinn. Price minnkaði muninn í 4-3 en í áttunda settinu náði Dobey að standast pressuna og tryggði sér 5-3 sigur í settum.

Hæsti gæðaflokkur hjá Rydz og MVG

Viðureign Callan Rydz og Michael van Gerwen sem fylgdi í kjölfarið var stórkostleg skemmtun.

Leikurinn var jafn í upphafi og skiptust þeir Rydz og van Gerwen á að vinna leggi. Þegar staðan var 2-2 í settum skipti van Gerwen í næsta gír og sýndi takta sem hann hefur sýnt píluáhugamönnum áður.

Hann raðaði inn stórum tölum og Rydz gat lítið að gert þrátt fyrir að vera að spila ágætlega sjálfur. Van Gerwen komst í 4-2 og var með leikinn í hendi sér. Þá vaknaði Rydz hins vegar á nýjan leik. Hann spilaði stórkostlega í sjöunda settinu og minnkaði muninn í 4-3.

Í áttunda settinu byrjaði Rydz betur en van Gerwen svaraði og settið fór í oddalegg. Þar fékk Rydz tvær pílur til að tryggja sér oddasett en klikkaði og það nýtti van Gerwen sér. Hann kláraði með því að hitta í tvöfaldan sextán með síðustu pílunni og tryggja sér þar með sæti í undanúrslitum.

Alls náðu þeir Rydz og van Gerwen að skora 180 stig í þrjátíu og eitt skipti í leiknum og voru báðir með meðaltal yfir 100 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×