Eftir 0-2 tap Arsenal fyrir Newcastle United í fyrri leik liðanna í undanúrslitum deildabikarsins í fyrradag kvartaði Arteta yfir boltanum frá Puma sem er notaður í keppninni. Hann sagði að hann hefði átt sinn þátt í slakri færanýtingu liðsins.
Chapman byrjaði beina útsendingu frá leik Tottenham og Liverpool í gær á því að skjóta á Arteta.
„Þetta fór 6-3 fyrir nokkrum vikum, nóg af mörkum, en þið búist væntanlega við 0-0 í kvöld vegna boltans,“ sagði Chapman.
Jamie Redknapp tók í kjölfarið við boltanum.
„Ég var furðu lostinn yfir því að hann hafi sagt þetta. Það eina sem ég er vonsvikinn með er að hann hafi ekki sagt þetta meðan við vorum í loftinu,“ sagði Redknapp.
„Ég skil þetta. Þetta er öðruvísi en með Nike boltann. En hann verður að vera snöggur að venjast þessu því Puma boltinn verður notaður í ensku úrvalsdeildinni á næsta ári.“
Michael Dawson gaf lítið fyrir gagnrýni Artetas á boltann.
„Það er munur en ég hefði ekki sagt þetta eftir frammistöðuna í gær [í fyrradag]. Alls ekki. Mikel Arteta er með afsakanir. Þeir hafa örugglega æft með boltann. Það er engin spurning,“ sagði Dawson.
Seinni leikur Newcastle og Arsenal í undanúrslitum deildabikarsins fer fram á St James' Park 5. febrúar.