Freyr Alexandersson kemur til Noregs í dag til að halda áfram viðræðum um að taka við einu besta liði norska fótboltans, Brann, og Per-Mathias Högmo hefur verið ráðinn þjálfari Molde.
Þetta kemur fram í norskum fjölmiðlum í dag og segir Nettavisen að eftir að Brann hafi ekki náð að semja við Danann Mike Tullberg sé komið að næsta manni á lista, sem sé Freyr. Hann þyki nú afar líklegur til að taka við Brann, sem hafnaði í 2. sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, aðeins þremur stigum á eftir meisturum Bodö/Glimt.
Hinn norski Högmo, sem KSÍ er sagt hafa rætt við sem mögulegan kandídat í landsliðsþjálfarastarf, lenti í Molde í dag og er að taka við liði bæjarins. Molde endaði í 5. sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.
KSÍ hefur einnig rætt við Arnar Gunnlaugsson, sem öfugt við hina tvo er í starfi sem þjálfari Víkings, um landsliðsþjálfarastarfið.