Enski boltinn

Farnir að orða Mourinho við Everton starfið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho  er orðaður við Everton starfið en það virðist þó vera lítið á bak við þær vangaveltur.
Jose Mourinho  er orðaður við Everton starfið en það virðist þó vera lítið á bak við þær vangaveltur. Getty/Richard Sellers

Enskir miðlar eru strax farnir að velta því fyrir sér hver verði næsti knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Everton.

Everton tók þá ákvörðun að reka Sean Dyche í dag aðeins þremur klukkutímum fyrir bikarleik liðsins.

Dyche mætti á blaðamannafundinn fyrir leikinn og fréttirnar hafa því vakið nokkra furðu.

En hvað með eftirmann hans? Nýir bandarískir eigendur hafa nú eignast félagið og ætla sér örugglega stóra hluti.

Veðbankar voru líka fljótir til og þeir setja Portúgalann Jose Mourinho sem þann líklegasta til að taka við Everton.

Lífið gengur ekki allt of vel hjá Mourinho í Tyrklandi þessa dagana og það vakti líka mikla athygli þegar hann grínaðist með það að hann vildi næst taka við liðið sem væri ekki í Evrópukeppni.

Það er lítil hætta á því að Everton sé í Evrópukeppni enda hefur lífið á Goodison Park snúist um það síðustu ár að halda sæti sínu í deildinni.

Ensku miðlarnir eru því farnir að orða Mourinho við starfið og það þrátt fyrir að hann hafi líka talað um það að fallbaráttan væri of erfitt starf fyrir sig.

Everton er aðeins rétt fyrir ofan fallsæti og sleppur ekki við fallbaráttuna í vetur ekki frekar en síðustu tímabil.

Hinn 61 árs gamli Mourinho hefur stýrt Chelsea, Manchester United og Tottenham í ensku deildinni. Hann þekkir toppbaráttuna og efri hlutann vel en hefur litla sem enga reynslu af fallbaráttu.

Það virðist þó vera lítil annað en vangaveltur að baki þess að veðbankar setji Mourinho sem líklegast eftirmann Dyche.

David Ornstein hjá The Athletic segir að samkvæmt hans heimildum þá komi Mourinho ekki tl greina í starfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×