Fótbolti

Freyr stígur inn í fót­bolta­sjúkt sam­félag: „Hefur á­hrif á allan bæinn hvernig gengur“

Aron Guðmundsson skrifar
Freyr Alexandersson, nýr þjálfari norska úrvalsdeildarfélagsins Brann
Freyr Alexandersson, nýr þjálfari norska úrvalsdeildarfélagsins Brann Mynd: Brann SK

Ólafur Örn Bjarna­son, fyrr­verandi leik­maður norska úr­vals­deildar­félagsins Brann er spenntur fyrir ráðningu félagsins á Frey Alexanders­syni í stöðu þjálfara. Hann segir Frey með því taka við einu stærsta félagi Norður­landanna þar sem að fylgst er gaum­gæfi­lega með öllu því sem gengur þar á. Krafan er sett á að vinna titil fyrir hvert tíma­bil hjá Brann.

Freyr var í gær kynntur sem nýr þjálfari Brann. Hann er annar Ís­lendingurinn til þess að taka við þjálfun liðsins en Teitur Þórðar­son var í tvígang ráðinn þjálfari liðsins á sínum tíma. Þá hafa fjölmargir ís­lenskir leik­menn verið á mála hjá liðinu. Einn þeirra er Ólafur Örn sem á hátt upp í 200 leiki fyrir Brann og varð á sínum tíma norskur meistari, sem og norskur bikar­meistari með liðinu. 

„Það er ótrú­lega spennandi að fá ís­lenskan þjálfara í einn af stóru klúbbunum á Norður­löndunum,“ segir Ólafur í samtali við íþróttadeild. „Ég myndi segja að Brann væri eitt af þremur stærstu félögum Noregs og svo eru tveir í Svíþjóð og tveir til þrír í Dan­mörku. Það er gaman að sjá Ís­lendinginn koma þarna inn og þá ekki síst vegna þess að það er nokkuð sterk Ís­lendinga tenging þarna.

Ég var þarna sem leik­maður í sjö ár. Bergen er svolítið sér­stakur bær, eða öllu heldur lands­hluti þar sem að allir fylgjast og halda með Brann. Það hefur áhrif á allan bæinn hvernig gengur um helgina. Rosen­borg og Viking eru líka eitt lið í stórum bæ en það er eitt­hvað sér­stakt við Brann. Ég held að Freyr hafi fundið fyrir því um leið.“

Ólafur Örn Bjarnason í leik með Brann á sínum tíma en hann upplifði góða og sigursælan tíma með félaginu

Fylgst náið með öllu hjá Brann

Og á Ólafur þar við aðstæðurnar sem Freyr fann sig í við komuna til Bergen á flugvellinum.

„Þegar að Freyr kemur til Bergen eru tíu til tuttugu blaða­menn sem taka á móti honum. Það var venju­legt á æfingum hjá okkur líka. Það er fylgst með öllu og það er rosa­lega mikill áhugi á þessu. Það er hvergi eins gott að vera og hjá Brann þegar að það gengur vel. Þetta er alveg ótrú­lega sér­stakur bær.“

Blaðamenn sátu um Frey er hann kom til Bergen í fyrradag. Áhuginn á öllu því sem tengist Brann er mikill á svæðinuMynd: ANDERS KJØLEN @ Ba.no

Brann hefur endað í 2.sæti norsku úr­vals­deildarinnar síðustu tvö tíma­bil og ekki tekist að vinna þann stóra síðan árið 2007 þegar að Ólafur, ásamt fleiri góðum Ís­lendingum var á mála hjá félaginu. Þrátt fyrir það er pressan svo sannar­lega til staðar.

„Það er nú þannig í Bergen að fyrir hvert einasta tíma­bil gera allir ráð fyrir því að þeir vinni deildina. Það er byrjað að syngja um það í fyrsta leik. Það sem er rosa spennandi í Noregi núna er líka það að nú hafa Bodo/Glimt og Mold­e haft mikla yfir­burði í deildinni síðustu fimm til sex árin. En nú sér maður greini­lega að stóru klúbbarnir eru að koma til baka.“

Ólafur Örn Bjarnason og Kristján Örn Sigurðsson.Mynd/Scanpix

Óhræddir við að láta í ljós óánægju sína

„Brann hefur átt tvö góð tíma­bil í röð núna. Rosen­borg var með ungan og nýjan þjálfara í fyrra sem að endaði tíma­bilið mjög vel. Viking er að koma til baka, Valerenga að koma upp um deild með þjálfara sem hefur verið við stjórn­völinn undan­farin þrjú ár og hafa verið að selja frá sér unga leik­menn á tölu­verðan pening.

Það er ekki bara það að Brann ætli að reyna ná Bodo/Glimt. Það eru þarna fimm til sex lið á bak við Brann, stórir klúbbar, sem ætla að taka þá líka. Deildin verður ótrú­lega spennandi út frá því að stóru klúbbarnir eru að koma sterkir til baka og minni klúbbarnir, eins og Mold­e og Bodo/Glimt sem eru með rosa mikinn pening á bak við sig, ætla ekki að gefa neitt eftir. Þetta verða grjót­harðir leikir hverja helgi. Það er engin spurning og á heima­velli var venju­lega baulað á okkur ef við vorum ekki búnir að skora mark í fyrri hálf­leik þegar að við gengum inn til búnings­her­bergja í hálf­leik.“

Freyr var síðast þjálfari belgíska úrvalsdeildarfélagsins KV KortrijkGetty/Nico Vereecken

Spilað úr þeim kortum sem hann hefur fengið

Freyr að taka við liði sem er ætlað að vera í topp­baráttu þar sem að baráttan verður hörð. Önnur staða en hjá Lyng­by og Kortrijk þar sem Freyr var í því að bjarga þeim liðum frá falli.

„Nú þekki ég Frey ekki persónu­lega en hann er með rosa mikla reynslu á því að þjálfa. Hann hefur spilað á þeim kortum sem hann hefur fengið í hendurnar í þeim liðum sem hann hefur þjálfað. Ég hef enga trú á öðru en hann hafi líka sínar hug­myndir um það hvernig eigi að spila sóknar­bolta og stjórna leikjum. Það er eitt­hvað sem er rosa spennandi.“ 

Freyr hefur verið vel liðinn þar sem hann hefur starfaðGetty

„Ég hef engar áhyggjur af því að liðið verði skipu­lagt og sterkt í föstum leik­at­riðum og allt svo­leiðis en ég geri ráð fyrir því að Freyr sé með ein­hverjar hug­myndir um það hvernig eigi að skora mörk líka.“. Freyr tekur við þjálfun Brann nú þegar rétt rúmir tveir mánuðir eru í að næsta tíma­bil hefjist. Hann þarf því að hafa hraðar hendur. Það er allt til alls þarna. Aðstaðan, áhuginn, um­hverfið og allt svo­leiðis. Hann kemur inn á rosa­lega spennandi stað og tíma. En eins og ég segi mun þetta verða grjót­hörð keppni milli fimm til sex liða sem verða mjög öflug á næsta tíma­bili.“

Aðalatriðið fyrir hann að komast í gang

Tveir og hálfur mánuður eru til stefnu þar til að Brann leikur sinn fyrsta leik í norsku úrvalsdeildinni á komandi tímabili. Nægur tími til stefnu fyrir Frey að láta til sín taka að mati Ólafs. 

„Þeir eru að tala um að þjálfarinn sem var í Brann hafi náð að breyta hlutum á viku hjá Saint-Etienne í Frakk­landi. Undir­búningstíma­bilið er nú rúmir tveir mánuðir og ég geri ráð fyrir því að hann muni fá sínu fram. Ég reikna með að það komi inn ein­hverjir nýir leik­menn og að þetta verði allt í góðu.“ 

„Aðalat­riðið fyrir hann er að komast í gang, meta leik­mennina og svo­leiðis. Það er alltaf ákveðin stemning í Bergen. Þú finnur það bara þegar að þú lest blöðin þar og fylgist aðeins með að það er ákveðinn spenningur þegar að það kemur eitt­hvað nýtt inn. 

Ég held líka að leik­mennirnir og stjórnar­menn í Bergen hafi verið búnir að gera sér grein fyrir því í haust í fyrra að það myndi koma nýr þjálfari inn. Það er ótrú­lega spennandi og gaman að sjá Freyr, sem er ungur þjálfari en með breiða og góða reynslu, koma inn í topp­klúbbana á Norður­löndunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×