Þetta kemur fram í umfjöllun People. Þar segir meðal annars að Holland hafi farið á hnéin á milli jóla og nýárs. Holland gerði garðinn frægan í Spiderman myndunum en Zendaya hefur bætt um betur og vakið mikla athygli í Euphoria sjónvarpsþáttunum og stórmyndunum um sandölduna, Dune.
Í umfjöllun miðilsins segir að Tom Holland hafi alltaf verið alveg óður í sína konu. Haft er eftir vinum parsins að í hans huga hafi aldrei komið neitt annað til greina en að giftast sinni konu. Þau ætli sér þó ekki að ana að neinu og gifta sig á tíma sem þeim hentar.

Pabbinn trúir
Bandaríska tímaritið lætur þess getið að Dominic Holland, pabbi Spiderman stjörnunnar, hafi skrifað hjartnæm orð um trúlofunina á blogg sitt á Patreon, þar sem hann þiggur peninga áskrifenda fyrir skrif sín.
„Ég hef haft áhyggjur af því að sameiginleg frægð þeirra muni ýta enn frekar undir þá athygli sem þau fá og þær kröfur sem verða lagðar á herðar þeirra. Þau halda samt áfram að koma mér á óvart með því að höndla allt saman af einstöku sjálfsöryggi,“ skrifar faðirinn.
Hann segist telja að skemmtanabransinn sé erfiður fyrir sambönd, sérstaklega þegar einstaklingar séu frægir. Dominic segist telja að samband hans við Nikki Holland eiginkonu sína, og móður Tom Holland, geti þó verið gott veganesti fyrir ung stjörnuparið.
„Með Nikki í stafni fjölskyldunnar og með mína „visku“ til viðbótar og fjölmörg dæmi um hvernig á ekki að gera hlutina, en samt láta þá ganga, að þá er ég þess fullviss um að þau muni verða hamingjusöm hjón.“