Í tilkynningu þess efnis á vef Veðurstofu Íslands segir að jarðskjálftahrinan í gærmorgun sé sú kröftugasta síðan síðustu eldsumbrot urðu í Bárðarbungu frá 2014 til 2015 og eldgos varð í Holuhrauni. Hreyfingar í jarðskjálftunum samræmist aukinni þenslu vegna kvikusöfnunar, sem hafi staðið yfir frá síðustu eldsumbrotum 2015.
Jarðskjálftavirkni hafi farið vaxandi í Bárðarbungu undanfarið og meðal annars hafi fjórir skjálftar mælst um eða yfir 5 að stærð á árinu 2024. Samhliða því hafi mælst aukinn hraði í aflögun vegna kvikuinnstreymis á dýpi undir Bárðarbungu.
Nokkur óvissa sé um hver þróun þessarar virkni verður á næstunni og ekki sé útilokað að jarðskjálftavirkni á svæðinu taki sig aftur upp. Að svo stöddu verði fluglitakóði fyrir Bárðarbungu áfram gulur. Sólarhringsvakt Veðurstofunnar fylgist náið með virkni í Bárðarbungu og fréttatilkynningar verði sendar út ef virkni eykst að nýju.