Enski boltinn

Klopp: Ég held partý ef Man City missir titlana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp með Pep Guardiola þegar hann stýrði Liverpool liðinu.
Jürgen Klopp með Pep Guardiola þegar hann stýrði Liverpool liðinu. Getty/Robbie Jay Barratt

Fyrrum knattspyrnustjóri Liverpool ætlar að halda sérstaklega upp á það á eyjunni Mallorca fari svo að enska úrvalsdeildin taki Englandsmeistaratitlana af Manchester City.

Réttarhöldum yfir Manchester City vegna yfir hundrað ákæra um brot á rekstrarreglum er lokið en það á eftir að fella dóm eða sýkna félagið.

Sjálfstæð nefnd fór yfir meira en 115 ákærur ensku úrvalsdeildarinnar fyrir þessi brot en félagið hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu.

Jürgen Klopp ætlar að fagna því vel fái Liverpool tvo Englandsmeistaratitl á silfurfati í viðbót við þann sem liðið vann undir hans stjórn árið 2020. ESPN segir frá.

Liverpool, undir stjórn Klopp, varð tvisvar sinnum í öðru sæti á eftir Manchester City á þessum tíma, fyrst 2018-19 og svo aftur. 2021-22.

Klopp er nú nýtekinn við nýju starfi sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Red Bull samsteypunni sem á fjölda fótboltafélaga út um allan heim. Hann varð spurður út í kærur City þegar hann kom fyrst opinberlega fram í nýja starfinu sínu.

„Við ræddum þetta þegar ég yfirgaf Liverpool. Ég hef ekki eytt miklum tíma á Mallorca af því að ég er alltaf á ferð og flugi. Ef þetta gerist þá hef ég talað við alla um að ég vildi sjá þá þar,“ sagði Klopp.

„Bókið bara ferð til Mallorca og ég skal sjá um að kaupa bjórinn. Við höldum sigurhátíð í garðinum,“ sagði Klopp.

Klopp viðurkennir þó að jafa ekkert fylgst með málinu eða þeim staðreyndum sem hafa komið fram. Hann vissi heldur ekki hvenær er von á niðurstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×