Erlent

Biden varar við fá­veldi í Banda­ríkjunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden varaði við því í gær að fáveldi væri í uppsiglingu í Bandaríkjunum.
Biden varaði við því í gær að fáveldi væri í uppsiglingu í Bandaríkjunum.

Joe Biden Bandaríkjaforseti kvaddi Bandaríkjamenn í síðasta ávarpi sínu til þjóðarinnar í gær og varaði meðal annars við því að fáveldi (e. oligarchy) væri í uppsiglingu.

„Í dag er fáveldi gríðarlegs auðs, valds og áhrifa að verða til í Bandaríkjunum, sem ógnar lýðræðinu, grundvallar réttindum okkar og frelsi og sanngjörnum tækifærum til handa öllum til þess að komast áfram,“ sagði forsetinn.

Biden var án efa að vísa til þess að fjöldi auðmanna hefur á síðustu vikum og mánuðum fylkt sér að baki Donald Trump, fyrrverandi og verðandi forseta, en NBC greindi til að mynda frá því í gær að Elon Musk, eigandi X og Tesla, Jeff Bezos, stofnandi Amazon, og Mark Zuckerberg, stofnandi Meta, yrðu viðstaddir innsetningarathöfn Trump og myndu sitja saman, nærri forsetanum.

Musk studdi Trump fjárhagslega í kosningabaráttunni og bæði Bezos og Zuckerberg gáfu milljón dollara í sérstakan sjóð til að fjármagna innsetningarathöfnina.

Í ávarpi sínu sagði Biden að Bandaríkjamenn væru að fara undir í flóði upplýsingaóreiðu, sem auðveldaði valdhöfum að misnota vald sitt. Forsetinn hvatti þjóðina til að taka þátt í hinu lýðræðislega ferli og láta til sín taka, meðal annars í loftslagsmálum.

„Hin áhrifamiklu öfl vilja beita óheftu valdi sínu til að vinda ofan af þeim aðgerðum sem við höfum gripið til til að takast á við loftslagsvandann, til að þjóna þeirra eigin ásókn í völd og hagnað. Við megum ekki láta kúga okkur til þess að fórna framtíðinni, framtíð barnanna okkar og barnabarna. Við verðum að horfa fram á við og ýta fastar.“

Biden kallaði einnig eftir því að forsetaembættinu væru sett mörk og sagði að forsetinn mætti ekki verða ónæmur gagnvart réttlætinu ef hann gerðist brotlegur í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×