Miklar væntingar hafa verið gerðar til íslenska landsliðsins á undanförnum árum en árangurinn hefur ekki verið í samræmi við það. Á síðustu tíu stórmótum hefur Ísland aðeins einu sinni endað ofar en í 10. sæti.
Ásgeir Örn og Einar voru gestir Stefáns Árna Pálssonar í sérstakri HM-útgáfu af Pallborðinu í tilefni þess að Ísland mætir Grænhöfðaeyjum í fyrsta leik sínum á mótinu í kvöld. Þeir vilja sjá íslenska liðið láta verkin tala á HM. Það sé kominn tími á það.
„Okkur finnst þetta lið geðveikt gott og finnst þeir hafa verið geðveikt góðir ógeðslega lengi. En ef ég orða þetta ískalt: Þeir hafa ekkert getað ennþá,“ sagði Ásgeir Örn í Pallborðinu.
„Þeir eiga enn eftir að skrifa alvöru velgengnissöguna sína. Allir sem hafa verið að spá og spekúlera í þessu hafa haft rosalega miklar væntingar í byrjun móts því þeim finnst við vera svo góðir. Svo hafa þetta verið vonbrigði þrjú ár í röð. Það er fyrsta árið núna sem allir eru smá dempaðir. Þeir þora ekki að skrúfa þetta of hátt.“
Að spila fyrir sinni framtíð
Einar tók svo við boltanum og talaði um að kjarninn í íslenska liðinu væri ef til vill að brenna úti á tíma, með að ná árangri. Huga þyrfti að breytingum ef ekki færi vel á HM.
„Mér finnst þetta lið svolítið vera að spila fyrir sinni framtíð. Það kemur alltaf þessi umræða: Er þjálfarinn rétti maðurinn, er hann kominn á endastöð, óháð því hver það er, þarf að gera breytingar eða eitthvað svona?“ sagði Einar.
„Ef þetta lið nær ekki árangri á þessu móti finnst mér að við eigum nánast að sprengja þetta upp og fá nýja og ferska fætur inn í þetta. Þessir gaurar, hvað eru þeir búnir að vera lengi saman? Þetta eru kannski 5-6 mót sem kjarninn í þessu liði er búinn að spila saman. Þeir hafa ekkert gert. Við getum ekki alltaf lifað á því að þessi og þessi sé í heimsklassa, þessi sé að spila í Magdeburg, svo komum við í mótin og vinnum aldrei leiki sem skipta máli. Þá bara, heyrðu sorrí strákar, nú þurfum við að hrista uppi í þessu.“
Innslagið úr Pallborðinu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Pallborðið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Leikur Íslands og Grænhöfðaeyja hefst klukkan 19:30 í kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi. Fjallað verður ítarlega um leikinn í máli og myndum á Vísi í kvöld.