Danir hafa nú unnið báða leiki sína til þessa í B-riðli. Eftir sigur gegn Alsír í fyrstu umferð mættu þeir Túnis í kvöld og skemmst er frá því að segja að sigur Danmerkur hafi aldrei verið í hættu í leik sem lauk með ellefu marka sigri þeirra, 32-21. Danir og Ítalir eru með fullt hús stiga á toppi B-riðils eftir tvo sigra í fyrstu tveimur leikjum riðlakeppninnar.
Í C-riðli vann Austurríki svo mikilvægan tveggja marka sigur á Katar, 28-26. En fyrr um daginn hafði Frakkland lagt Kúveit nokkuð örugglega af velli. Frakkar og Austurríkismenn eru með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar.
Og þá hófst keppni í F-riðli í dag og í seinni leiknum unnu Svíar afar sannfærandi sigur á Japan 39-21. Sebastian Karlsson fór mikinn í markaskorun fyrir Svía í leiknum með alls átta mörk. Fyrr í dag í sama riðli unnu Spánverjar einnig sannfærandi sigur á Síle.