Elliði byrjaði á bekknum en kom inn á um miðbik fyrri hálfleiks. Hans naut þó ekki lengi við því á 27. mínútu fékk hann rautt spjald fyrir að fara í andlitið á Edmilson Araújo. Þetta var annað rauða spjald Elliða í síðustu þremur leikjum en hann var einnig rekinn upp í stúku í fyrri vináttulandsleiknum gegn Svíþjóð í síðustu viku.
„Glórulaus ákvörðun,“ sagði Einar Jónsson í Besta sætinu, hlaðvarpi íþróttadeildar Sýnar, um rauða spjaldið sem Elliði fékk. Einar og Ásgeir Örn Hallgrímsson gerðu Grænhöfðaeyjaleikinn upp ásamt Aroni Guðmundssyni í Besta sætinu í gærkvöldi.
„Menn sögðu: Æ, hann er svo grimmur og viljugur og óheppinn. Það er óheppni ef þú gerir þetta einu sinni en þegar þetta er síendurtekið er þetta bara lélegt,“ sagði Einar.
Elliði hefur verið fyrirliði íslenska liðsins í fjarveru Arons Pálmarssonar. Einar segir að hann verði að gera betur með aukna ábyrgð á herðunum.
„Þetta er fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta. Við eigum að ætlast til meira af honum,“ sagði Einar og Ásgeir Örn tók svo við.
„Mér fannst þetta ekki vera rautt spjald á móti Svíunum en ég held að dómararnir hafi alveg neglt þetta þarna. Þetta var svo tilgangslaust. Þetta var glórulaust. Sérstaklega í ljósi þess að hann þarf á leikjum að halda. Ég held að hann hafi bara náð einum leik með Gummersbach áður en mótið byrjaði. Svo koma þessir æfingaleikir og hann fær ekki séns á að vera á parketinu,“ sagði Ásgeir Örn.
Þrátt fyrir að missa Elliða snemma af velli vann Ísland öruggan sigur á Grænhöfðaeyjum, 34-21. Næsti leikur íslenska liðsins er gegn Kúbu annað kvöld.
Hlusta má á Besta sætið í spilaranum hér fyrir ofan og hér fyrir neðan. Þáttinn má finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum.