Ísland byrjaði leik gærdagsins við Grænhöfðaeyjar vel. Liðið var tíu mörkum yfir í hálfleik eftir að hafa keyrt yfir hægt lið andstæðinganna fyrir hlé.
„Ég er bara að leita eftir frammistöðu frá mínu liði og ég fékk hana, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við þurftum að ná í tvö stig, við gerðum það og svo lögðum við þennan leik til hliðar og það er Kúba á morgun,“ segir Snorri Steinn.
Kaflinn var slæmur, og hvað?
Líkt og Snorri nefnir þá dró úr kraftinum þegar á leið. Eftir fína byrjun á síðari hálfleik tók við erfiður kafli þar sem Ísland fékk á sig fimm mörk gegn engu og tapaði boltanum ítrekað í sókninni.
Gjarnan hefur verið talað um hinn svokallaða slæma kafla hjá íslenska liðinu, hugtak sem hefur fest sig rækilega í sessi frá því áður en Snorri sjálfur spilaði fyrir landsliðið. En á hann stoð í raunveruleikanum? Er alltaf slæmur kafli sem íslenska liðið á og á þetta hugtak við á hverju stórmóti, sama hvaða leikmönnum er stillt upp í liðið?
„Ég held að þetta fylgi bara umræðunni á Íslandi. Kaflinn var slæmur. Og hvað? Við getum kallað þetta það sem við viljum. Það var bara kafli í seinni hálfleik sem var verulega slappur og þá er það slæmur kafli. Þá þurfum við bara að díla við það og gera betur. Eina leiðin til að útrýma þessum slæma kafla er bara að hætta þessu,“ segir Snorri Steinn í samtali við Vísi.
Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í spilaranum.
Ísland mætir Kúbu í öðrum leik liðsins á HM klukkan 19:30 annað kvöld. Landsliðinu verður fylgt vel eftir hér á Vísi fram að leik, sem og á Stöð 2 og Bylgjunni.