Allt stefndi í að leikurinn myndi enda með markalausu jafntefli en í uppbótartíma tók Darwin Núnez til sinna ráða. Úrúgvæinn skoraði tvö mörk og tryggði Rauða hernum stigin þrjú.
„Við höfum spilað við Manchester City og Arsenal og núna Liverpool á stuttum tíma. Fyrir mér er Liverpool skör ofar en hin liðin. Þeir eru heilsteyptir. Vinnusemin og hvernig þeir hlaupa til baka eru góðir mælikvarðar,“ sagði Frank eftir leikinn í gær.
„Þeir eru góðir úti um allan völl. Þeir eru svo hættulegir fram á við. Þetta er besta lið ensku úrvalsdeildarinnar og heimsins. Þeir eru langlíklegastir til að vinna þetta.“
Gærdagurinn varð enn betri fyrir Liverpool þegar Arsenal, sem er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, missti niður tveggja marka forskot gegn Aston Villa. Liverpool er því með sex stiga forystu á toppi deildarinnar og á leik til góða á Arsenal.
Næsti leikur Liverpool er gegn Hákoni Arnari Haraldssyni og félögum í franska liðinu Lille í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn. Liverpool er með fullt hús stiga á toppi Meistaradeildarinnar.